sögur

Allt um fötin sem ég var í þegar mér var nauðgað – Steldu lookinu!

Nú eru ekkert smá margar byltingar að ganga yfir Ísland sl. sirka fjögur ár varðandi ofbeldi, nauðganir og í rauninni allt sem er kynferðislegt eða misrétti vegna kynja. Eða ég sé þetta að minnsta kosti þannig.

Ég er ekkert smá ánægð, fyrir komandi kynslóðir að það sé verið að móta samfélagið upp á nýtt í þessum málum. Það er frábært! Við stelpur og konur í samfélaginu höfum verið að styðja við hvora aðra og það eru allir einhvern veginn að passa uppá hvort annað, eða ég upplifi þetta þannig. Að sjálfsögðu eru skemmd epli inn á milli, en það hefur alltaf og mun alltaf vera þannig.

Við verðum aldrei laus við nauðganir né ofbeldi af neinu tagi, það kemur til með að vera alltaf til staðar, en líklega í mun minna magni.. lítandi til baka sirka 100 ár og fram á við næstu 100 ár, breytingin er mikil og verður enn meiri.

Svolítið eins og friður í heiminum, við viljum flest frið, engin stríð eða styrjaldir, en sorglega staðreyndin er að það verður samt aldrei friður allstaðar.

Hvað getum við gert til þess að breytingin haldi áfram í góða átt? Við breytum engum nema okkur sjálfum am I right? Við getum öll litið í eiginn barm og hugsað hvað getum við gert betur? Það er ótrúlega gott að gagnrýna sjálfa sig reglulega, pæla í hlutunum frá öðrum áttum líka heldur en bara sinni eigin..

Skiljiði hvert ég er að fara með þetta eða ?
Ekki eg heldur…

Mér var nauðgað 17 ára. 20. mars 2013, á miðvikudegi.. Einhverstaðar á milli 15:00-16:00. Ég var þarna hágrátandi með koddann yfir andlitinu mínu, gjörsamlega frosin. 
Það ætti samt ekki að skipta neinu máli hvar eða hvenær, alls ekki. Bara ekki neinu.

Ég hef aldrei skilað neinni skömm eins og margar konur hafa verið að gera seinustu ár á facebook hópum. Því ég hef aldrei verið með skömm yfir því, ég hef alltaf vitað að skömmin sé ekki mín, þetta var ekki mér að kenna, ég bað ekki um að vera nauðgað á neinn hátt, og það hef ég alltaf hugsað og vitað síðan.

Fyrsta manneskjan sem ég sagði frá, mjög náin mér. Sagði ég frá um það bil 6 vikum eftir þetta. Þetta er manneskja sem ég treysti, lýt upp til og tek mark á.

Svörin sem ég fékk þegar ég opnaði mig fyrir þessari manneskju brutu hjartað mitt, og hjartað mitt er enn örlítið brotið vegna viðbragðanna. 

Ég segi hreint út, í gegnum símann við manneskjuna ” mér var nauðgað fyrir 6 vikum

Hinu megin í símanum heyrist ” Já ókei, varstu full á djamminu? Hvernig varstu klædd ?

Það má vel vera að þessi manneskja hafi svo sagt meira sem var fallegt eða boðið hjálp. En ég bara man það ekki. Því þegar þessar setningar eru sagðar við 17 ára stelpu sem er að opna sig um nauðgun í fyrsta skipti, þá kemst ekkert annað að í hausnum, þessar setningar bergmáluðu í hugsunum mínum í marga mánuði.

Ég táraðist við að skrifa þessar setningar, ekki vegna þess að mér var nauðgað, heldur vegna þess að það er svo ótrúlega sárt að þetta hafi verið og sé viðmótið.

Eftir þetta þá sagði ég örfáum, ég get í raun talið það á einni hendi hversu mörgum ég hef sagt frá þessu, og alls ekki útaf skömm. Heldur nákvæmlega útaf viðbrögðum fyrstu manneskjunnar. Ég kærði ekki, kæran hefði aldrei farið í gegn og ég verið kölluð lygari og það var rússíbani sem ég nennti ekki í.

Afhverju skipti það máli hvort hún var full?
Afhverju skipti það máli hvar hún var?
Afhverju skipti máli í hvað hún var klædd?
Afhverju þessar spurningar?

Eins og ég sé breytingarnar þá held ég að þær séu á góðri leið, þetta victim blaming og slut shaming er allt að breytast og á góðri leið því best sem ég veit. Og ég er svo ótrúlega stolt og ánægð með kynsystur mínar sem standa upp og ryðja brautina fyrir okkur hinum.

Ég veit ekki hvaðan ég fékk þann styrk og hugarfar að hafa aldrei skammast mín og aldrei þurft að skila neinni skömm. En ég veit heldur ekki hvað ég var að pæla með að þora ekki að segja fólki vegna viðbragða.

Við fáum kannski aldrei hreinann heim, með engum stríðum, glæpum, nauðgunum eða ofbeldi. En ég vona að einn daginn að allar stelpur sem hafa orðið fyrir slíku, eða eiga eftir að verða fyrir slíku, viti það og trúi því innst inni að það er ekki þeim að kenna, skömmin er ekki þeirra, hefur aldrei verið og mun aldrei verða. 

Og ég vona að einn daginn sé fólk hætti að spyrja stelpur spurninga eins og ég fékk. 

Sama hvað við gerum, sama hvernig myndir fara á facebook, sama í hvaða fötum við erum, sama hvernig við erum málaðar, sama hversu sætar við erum, sama hversu ljótar við erum, sama hvort við skrifum um kynlíf. Sama hversu fullar við erum. Sama hvar við erum.

Það er aldrei neinn að biðja um nauðgun.

Aldrei. 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Change )

Connecting to %s